2006-05-03 00:00:00
Marta Guðjónsdóttir fulltrúi sjálfstæðismanna í Hverfaráði Kjalarness skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. mars 2006.
{mosimage}
Kjalarnesið - Vítaverð vanræksla R-listans
Ég hef setið í hverfisráði Kjalarness á þessu kjörtímabili og fylgst þar með þeim vinnubrögðum R-listans er lúta að málefnum íbúanna. Þau vinnubrögð geta ekki fengið aðra umsögn en vítaverð vanræksla. Tekið hefur verið á brýnustu hagsmuna- og öryggismálum íbúanna með fullkomnu sinnuleysi og framtaksleysi og endalausum innantómum loforðum sem flest, ef ekki öll, hafa lent upp í erminni.
Kjalnesingar hlunnfarnir
Sú var tíðin, 1998, að fyrrverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði uppi fjálglega frasa um gagnkvæma hagsmuni, beggja sveitarfélaganna, Reykjavíkur og Kjalarness, af sameiningunni.
En nú er öldin önnur: R-listanum hefur ekki þótt neitt sjálfsagðara en að svíkja flest loforð gagnvart Kjalnesingum og brjóta á þeim samninga, m.a. þann samning sem sveitarfélögin gerðu með sér við sameininguna. Kjalnesingar hafa svo sannarlega fengið að reyna að þeir eru olnbogabarn borgarinnar. Nú er svo komið að margir málsmetandi Kjalnesingar, telja sig og sveitunga sína hafa heldur betur verið hlunnfarna, og eru farnir að efast um réttmæti sameiningarinnar.
Öryggismál í ólestri
Kjalarnesið er beinlínis lífshættulegt íbúasvæði, börnum, unglingum og fullorðnum. Það er oft stórhættulegt ökumönnum og farþegum þeirra að hægja mikið á sér á Vesturlandsveginum og beygja síðan inn í Grundarhverfið vegna ógnarhraða og sívaxandi umferðar, sífellt stærri og fleiri vöruflutningabíla, að ekki sé nú talað um aðra og fáfarnari afleggjara Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.
Sjálfstæðismenn í umhverfisráði lögðu fram tillögur um úrbætur í umferðaröryggismálum á Kjalarnesi 22. febrúar sl., en R-listinn frestaði tillögunni. Það er dæmigerð afstaða þeirra þegar málefni Kjalarness eru annars vegar.
Börn og unglingar á Kjalarnesi hafa reynt eftir megni að leika knattspyrnu í moldarsvaði meðfram Vesturlandsveginum þar sem umferðarþunginn er gífurlegur. Þar er ekki einu sinni rolluheld girðing og svo stutt í þjóðveginn að boltinn fer oft út á og yfir veginn. Börnin og unglingarnir hafa þolinmóð beðið eftir, einum einasta, þokkalegum sparkvelli frá því slíkum velli var lofað fyrir tveimur árum. En þar er líklega til of mikils mælst, enda bólar ekkert á vellinum.
Margsvikin loforð
Meira en helmingur vegakerfisins á Kjalarnesinu er malarvegir eins og tíðkuðust í Reykjavík áður en Geir Hallgrímsson, þáverandi borgarstjóri, útrýmdi slíkum götum og vegum á sjöunda áratug síðustu aldar. Nýbyggingin við grunnskóla hverfisins, Klébergsskóla, heldur ekki vatni og hefur ekki gert það frá því hún var tekin í notkun.
Fjögur ár, samfleytt, frestaðist skólahald við Klébergsskóla vegna seinkunar á framkvæmdum við skólann. Skólalóð Klébergsskóla er algjörlega ófrágengin, þrátt fyrir margítrekuð loforð um frágang hennar. Leikskólinn sem upphaflega og réttilega átti að verða þriggja deilda, var minnkaður niður í tveggja deilda skóla með þeim afleiðingum að hann er nú þegar orðinn of lítill. Aðkoman að honum er kennslubókardæmi í slysagildrum fyrir börn og fullorðna.
Enn hefur ekki verið lokið við gangstéttagerð og ýmsan annan frágang við götur Grundarhverfis þó nú hafi í mörg ár tíðkast í Reykjavík og öðrum bæjarfélögum að ganga frá slíkum framkvæmdaatriðum áður en íbúar flytja í hið nýja hverfi. Og svona gæti ég lengi haldið áfram. Allt er á sömu bókina lært.
Korter fyrir kosningar
Ekkert af þessu er þó aðalatriðið hér: Aðalatriðið er sjálfumgleði og hroki þeirra fulltrúa R-listans sem fimmtudaginn 23. mars sl. létu loks draga sig upp á Kjalarnes á kosningafund, korter fyrir kosningar, hlusta þar á umkvartanir íbúanna, - en tóku síðan til máls og töluðu fjálglega um sínar fallegu framtíðarhugsjónir, en létu umkvartanirnar íbúanna sem vind um eyru þjóta.
Slík framkoma sýnir fádæma valdhroka og er því frágangssök.
Það er athyglisvert, að mörg - jafnvel flest - þeirra úrlausnarefna sem hér koma til álita, kosta borgina óverulegar fjárhæðir miðað við öryggishagsmuni Kjalnesinga. Spurningin snýst því ekki um fjármuni, heldur áhuga á velferð borgaranna og að staðið sé við gerða samninga.
Við sjálfstæðismenn teljum það sjálfsagða skyldu okkar að standa við samninga og gefin loforð. Við viljum láta verkin tala, teljum það skyldu okkar að hlusta á íbúa borgarinnar, forgangsraða verkefnum og framkvæma án tafar það sem er aðkallandi.og varðar öryggi borgarbúa. Við munum því standa við þau fyrirheit á Kjalarnesinu sem R-listinn hefur svikið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 28. mars 2006.