2008-09-12 11:04:17
Þessi grein er skrifuð af Þóri Ingþórssyni varaformanni Hverfisráðs Kjalarness og birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkru.
Samgöngur til og frá höfuðborginni
Að undanförnu hafa átt sér stað talsverðar umræður um samgöngumál og umferðaröryggi. Sú umræða hefur oftar en ekki skapast í framhaldi af slysum eða umferðaróhöppum og inn í þá umræðu blandast eðlilega samgöngur til og frá Reykjavík. Það er því hryggilegt að sjá hversu litla áherslu stjórnvöld leggja á frekari samgöngubætur til og frá höfuðborginni okkar. Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi hafa síðastliðin ár lagt mikla áherslu á mikilvægi tvöföldunar á þjóðvegi 1 frá Holtavörðuheiði að Kollafirði. Hafa samtökin bent á mikilvægi þess að hefjast framkvæmda sem fyrst vegna þeirrar miklu aukningar á þungaflutningum á þessum slóðum síðastliðin ár. Hafa önnur samtök, þar á meðal íbúasamtökin á Kjalanesi sem og Hverfisráð Kjalarness, sent frá sér ályktanir sem snúa að þessum málum.
Slit og slysahætta
Í dag er ekkert flutningaskip sem siglir úti fyrir ströndum Íslands með viðkomu í helstu höfnum hringinn í kringum landið. Það er eðlilegt að vöruflutningar hafi færst í auknum mæli inn á þjóðvegakerfið vegna krafna um ferskleika vöru við afhendingu. Staðreyndin er hins vegar sú að þróunin hefur leitt til þess að allir flutningar fara landleiðina því ekki hefur þótt hagkvæmt að aðeins hluti vöruflutninga sé á hafi úti. Allir flutningar fara því landleiðina með þeirri miklu umferð sem því fylgir og ómældu sliti á vegakerfinu. Þessir flutningabílar eru allt að 50 tonn fullhlaðnir á meðan meðalfólksbíllinn er innan við 2 tonn. Hver maður sér hina auknu slysahættu sem af þessu hefur hlotist. Það er því löngu tímabært að kanna kosti þess að niðurgreiða strandsiglingar með opinberu fé því talsverður sparnaður hlýtur að koma á móti vegna minna slits á vegakerfi landsmanna og vegna minni slysahættu. Þetta er sú alvarlega staðreynd sem blasir við okkar í dag – flutningar á vörum og sjávarfangi fara þvers og kruss um þjóðvegi landsins, flestir með viðkomu í höfuðborginni, og aldrei kemur Sundabraut.
Hefjumst handa við tvöföldun þjóðveganna til og frá Reykjavík
Ég tel að á meðan samgönguráðherra er að velta fyrir sér legu Sundabrautar og því hvort innheimta eigi veggjald vegna þeirrar framkvæmdar þá gæti hann byrjað að gera vegina til og frá höfuðborginni sómasamlega. Hann gæti byrjað nú þegar að tvöfalda akreinar frá Borgarnesi að Reykjavík, þ.e. að þeim stað sem Sundabraut kemur upp á Kjalarnes. Vesturlandsvegur í þeirri mynd sem hann er í nú gengur ekki og þolir enga bið. Hið sama á við um Suðurlandsveg til Selfoss. Við höfum horft upp á svo mörg alvarleg slys á þessum vegaköflum undanfarin ár og alltaf þyngist umferðin.
Landsmenn eru orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi samgönguyfirvalda og vilja skýr svör og ákvarðanir.
Því segi ég vaknaðu herra samgönguráðherra. Slysin gera ekki boð á undan sér.
Þórir Ingþórsson
Esjugrund 52 116 Kjalarnesi